Málflutningi norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik er lokið. Hann tók talsvert lengri tíma en til stóð, en honum hafði verið úthlutaður hálftími. Reyndin varð sú að hann stóð í tæpan einn og hálfan tíma. Fátt kom á óvart í máli hans, sem einkenndist af stóryrtum yfirlýsingum og í lokin krafðist hann þess að verða látinn laus tafarlaust.
Þegar hálftími var liðinn spurði dómari Breivik hvort hann væri að fara að ljúka máli sínu, en Breivik sagðist þá vera tæplega hálfnaður.
Morðinginn staðhæfði að allar fullyrðingar um að múslímar séu friðsöm þjóð væru áróður og nefndi ýmsar tölur í því sambandi.
Hlegið að Breivik
Að sögn fréttamanns NRK las Breivik textann af blaði og virðist ekki kunna hann utanað. Lítil merki voru um að hann væri að tala frá eigin brjósti. Viðstaddir virtust lítið mark taka á málflutningnum og á stundum var einfaldlega hlegið að honum. Augum var ranghvolft og höfuð hrist þegar Breivik talaði um „þjóðernishreinsanir“ og „herskáa múslíma“.
Hann sagði að Verkamannaflokkurinn hefði með fjölmenningarstefnu sinni og umburðarlyndi gagnvart öðrum kynþáttum og trúarbrögðum eyðilagt norskt samfélag.
Dómari áminnti hann um tímann, þegar hann hafði talað í 45 mínútur. Breivik svaraði því þá til að hann yrði að fá að útskýra mál sitt, það væri grunnurinn að málsvörn hans. Aðalverjandi Breiviks, Geir Lippestad, sagði þá að mikilvægt sé að hann fengi að ljúka máli sínu og dómari féllst á það.
Krafðist lausnar
Breivik spáði borgarastyrjöld, þar sem almennir borgarar myndu taka ráðin af valdhöfum og hafna fjölmenningarsamfélaginu.
Í lokinn krafðist hann þess, á grundvelli málflutnings síns, að hann yrði látinn laus nú þegar. Hann hefði framið voðaverk sín með hagsmuni norsku þjóðarinnar í huga.