Breivik lýgur til að hljóma spennandi

Sérfræðingur í hægri öfgamennsku telja að Anders Behring Breivik sé að ljúga til um samskipti sín við alþjóðlega riddarareglu, til þess að láta sjálfan sig hljóma spennandi. Saksóknari í málinu gegn honum, Inga Bejer Engh, spurði hann í þaula um hina meintu riddarareglu í dag. 

Breivik sagðist aðspurður í dómssalnum vera nokkurs konar „eins manns sella" í riddarareglunni, en hann væri jafnframt í tengslum við tvær aðrar slíkar sellur. Hann fullyrti að riddarareglan sé til en viðurkenndi jafnframt að hann hefði kannski gert aðeins of mikið úr henni í upphafi. Saksóknarateymið gerði það alveg ljóst í dómssalnum í dag að það telur riddararegluna vera uppspuna. 

Lygar og rugl

Eftir málflutninginn í dag ræddi Aftenposten við Tor Bach, sérfræðing í hægri-öfgamennsku og hann trúir Breivik ekki heldur. „Það eru til slík samtök þar sem eru þrír eða fjórir ákafir meðlimir, en það er ólíklegt að Breivik sé hluti af þeim. Hann heldur líklega að þetta hljómi mjög töff, en þetta eru bara lygar og rugl í honum til þess eins að láta sjálfan sig hljóma áhugaverðan," segir Bach.

Bach segir að bresku öfgamennirnir Paul Ray, einn stofnanda samtakanna English Defence League, fyrrum nasistinn Nick Greger og Johnny „Mad Dog" Adair myndi samband sem þeir kalli riddarareglu en rannsókn lögreglu hafi staðfest að Breivik sé ekki í neinni samvinnu við þá. 

Leiðinlegur og sneyddur persónutöfrum

„Það getur alveg verið að hann hafi sent þeim ímeil [...] Þeir hafa sett inn nokkur myndbönd á YouTube sem Breivik hefur örugglega séð og verið hrifinn af. Við erum að tala um mann sem grípur til óhugsandi aðgerða. Hann er vís til að reyna að byggja upp ímynd af sér sem hluta af einhverju stærra. Þetta er hálfgert snobb og snýst um að ljúga til um „vini á hátt settum stöðum". Það er auðveldara fyrir hann að verja það sem hann hefur gert ef hann er hluti af einhverju stærra, ekki bara einn maður sem hljóp um Úteyju og drap lítil börn."

Bach segir það áberandi hversu mikill meðalmaður Breivik sé. „Það slær mig að hann sé svona venjuleg og leiðinleg manneskja. Hvaða miðlungspredikari sem er hefur hundrað sinnum meiri persónutöfra og sannfæringarkraft en hann. Þetta virðist vera einhver strákafantasía sem hann trúir varla á sjálfur. En þetta var enginn babblandi geðsjúklingur sem við sáum í dómssalnum í dag."

Anders Behring Breivik heilsar að hætti hægri-öfgamanna í dómssalnum í …
Anders Behring Breivik heilsar að hætti hægri-öfgamanna í dómssalnum í Ósló. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert