Annar dagur réttarhaldanna yfir norska fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik hófst í morgun með því að Wenche Elizabeth Arntzen dómari í málinu vakti máls á athugasemd eins meðdómendanna, Thomas Indrebø, í athugasemdakerfi netmiðils, þar sem hann sagði að Breivik ætti ekkert annað skilið en dauðarefsingu.
Indrebø skrifaði athugasemdina daginn eftir voðaverk Breiviks. Hann stóð upp í réttarsal og viðurkenndi að hafa skrifað athugasemdina þann 23. júlí í fyrra. Tveir meðdómendur sögðust telja að hann ætti að víkja, þar sem hann væri óhæfur til setu vegna ummælanna.
Gert hefur verið hálftíma hlé, þar sem þessi staða verður rædd.