Sýrlenskar hersveitir hafa myrt að minnsta kosti tvo almenna borgara í dag og haldið sprengjuárásum sínum áfram á mótmælendur þrátt fyrir að bandarísk yfirvöld hafi gefið út aðvörun þess efnis að þau ræði nú um úrræði sem grípa verði til, fari friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna út um þúfur í Sýrlandi.
Eftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum komu til Damaskus á sunnudag til að fylgjast með framgangi vopnahlés en tugir manna, hermenn sem óbreyttir borgarar, hafa látið lífið í átökum síðan vopnahléið tók gildi á fimmtudag.
Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur krafist þess að stjórnvöld sýni stillingu og að uppreisnarmenn sýni jafnframt samstarfsvilja sinn í verki. 35 létu lífið í gær í átökum víða um Sýrland.
Tveir almennir borgarar létu lífið og fjöldi annarra særðist þegar sprengjur féllu í Basr al-Harir í Daraa-héraði, suður af Damaskus í gær.
Fréttir af vélbyssuskothríð bárust einnig víða frá Sýrlandi í gær og sprengjur féllu að nýju í Homs. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að bandarísk stjórnvöld „vonuðu það besta“ en ræddu jafnframt um úrræði sem grípa þyrfti til, gengi friðaráætlunin ekki eftir.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, beindi spjótum sínum að uppreisnarmönnum í ljósi þess að ellefu hermenn létu lífið í gær. Hann krafðist þess að erlendir stuðningsaðilar við uppreisnarmenn beittu þá þrýstingi til að efna loforð sitt um að leggja niður vopn.