Bandarísk hjúkrunarkona hefur viðurkennt að hafa skotið til bana unga móður og rænt nýfæddu barni hennar. Barnið, þriggja daga gamall drengur, fannst óskaddað hjá systur hjúkrunarkonunnar í gær.
Kala Marie Golden, 28 ára gömul, fór með nýfæddan son sinn í ungbarnaeftirlit á heilsugæslustöð í bænum Spring í Texas í gær. Vitni segja að rifrildi hafi brotist út milli hennar og hjúkrunarkonunnar, Verna McClain, á bílastæðinu. Það endaði með því að McClain dró upp byssu og skaut Golden nokkrum sinnum og tók af henni barnið og settist inn í bílinn sinn.
Vitni lýsa því þannig að Golden hafi í dauðateygjunum teygt sig á eftir henni og hrópað. „Barnið mitt" áður en McClain ók burt. Hjúkrunarkonan er ekki starfsmaður heilsugæslustöðvarinnar. Saksóknarar telja að tilviljun ein hafi ráðið því að hún réðst á Golden en ekki einhverja aðra konu. Hennar eina markmið hafi verið að ræna barni.
Drengurinn, Keegan, fannst stuttu síðar og var honum komið til ömmu sinnar og afa, foreldra Golden, að sögn barnaverndaryfirvalda.