Markmiðið var að drepa alla

Geir Lippestad verjandi fylgist með Anders Behring Breivik í dómssalnum …
Geir Lippestad verjandi fylgist með Anders Behring Breivik í dómssalnum í morgun. Reuters

Anders Behring Breivik lýsti því fyrir réttinum í Ósló í morgun að hann hafi upphaflega ætlað að sprengja þrjár bílasprengjur en hætt við vegna þess að það reyndist erfiðara en hann hélt að setja þær saman. Markmið hans á Útey var að „drepa alla". Samkvæmt lögreglu voru 569 manns á eyjunni þann 22. júlí í fyrra.

Breivik heilsaði ekki með kveðju hægri öfgamanna í dag, líkt og síðustu fjóra daga í réttarsalnum. Lögfræðingar hans munu hafa beðið hann um að láta af þeim sið. Í framburði hans í morgun kom fram að Breivik hafði upphaflega hugsað sér að sprengja eina sprengju við stjórnarráðið, aðra við skrifstofu Verkamannaflokksins og þá þriðju við konungshöllina. ljóst varð að þetta gengi ekki upp ákvað hann að fara út í Útey. Þar sá hann fyrir sér að hann myndi berjast til síðasta blóðdropa, og áætlaði að líkurnar á því að hann lifði af skotbardaga við lögreglu væru um það bil 5%. 

„Ekki barnamorðingi“

 Þegar saksóknarinn Svein Holden spurði hann hvort hann væri barnamorðingi svaraði Breivik: „Nei, ég er ekki barnamorðingi. Ungir stjórnmálamenn eru réttmæt skotmörk." Útey hafi verið hagkvæmasta pólitíska skotmarkið. „Markmiðið var ekki að skjóta 69 manneskjur á Útey. Markmiðið var að drepa alla," hefur Nrk.no eftir Breivik. 

Hatur Breivik á fjölmiðlum kom skýrt fram í réttarsalnum í morgun. Hann skýrði frá því að hann hefði íhugað að gera Dagsavisen, Aftenposten og NRK að skotmörkum, því þessir fjölmiðlar séu þátttakendur í samsærinu um að íslamvæða Noreg. Hann íhugaði þess vegna m.a. að gera árás á fjölmenna ráðstefnu samtakanna Skup um rannsóknarblaðamennsku. „Norskir fjölmiðlar bera stærsta ábyrgð, kannski jafnmikla og Verkamannaflokkurinn. En því miður var ég of seinn" sagðir Breivik. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert