Kanadískur karlmaður var í dag ákærður fyrir blóðuga slátrun á yfir 50 Husky sleðahundum, sem notaðir voru í ferðaþjónustu á meðan Vetrarólympíuleikunum stóð árið 2011.
Saksóknari í Bresku Kólumbíu gaf ákæruna út á hendur Robert Fawcett, framkvæmdastjóra sleðahundaleigu á skíðasvæðinu Whistler, fyrir að hafa valdið fjölda hunda óþarfa sársauka og þjáningu.
Eftir að háannatíð Ólympíuleikanna var lokið sá Fawcett fram á að ekki væri lengur þörf fyrir fyrirtækið að halda svo marga sleðahunda. Hann ku hafa slátrað hundunum með fremur villimannslegum hætti, með skammbyssu og hnífi.
Fékk bætur vegna áfallastreituröskunar
Sagt er að hundruð annarra sleðahunda hafi horft upp á slátrunina, særðir hundar hafi reynt að sleppa og einn hundur hafi daginn eftir skrifið blóðugur og helsærður upp úr fjöldagröf þar sem maðurinn varpaði hræjunum.
Athæfið spurðist út og vakti gríðarlega reiði um allan heim. Í kjölfarið hófu lögregla og dýraverndunarsamtök í Kanada rannsókn á málinu. Þá hefur atvikið orðið til þess að yfirvöld í Bresku Kólumbíu innleiddu ný lög um meðferð á sleðahundum í ferðaþjónustu.
Það má heita kaldhæðnislegt að málið komst upp eftir að framkvæmdastjóranum voru greiddar bætur frá heilbrigðisyfirvöldum vegna áfallastreitu í kjölfar slátrunarinnar.