Erfitt en gott að heyra frásögn Breivik

Hvítar rósir með nöfnum allra fórnarlamba Anders Behring Breivik var …
Hvítar rósir með nöfnum allra fórnarlamba Anders Behring Breivik var raðað upp við dómshúsið í Ósló í lok fyrstu viku réttarhaldanna. Reuters

Ung stúlka sem lifði af fjöldamorðin á Útey segir að það sé gott að fylgjast með réttarhöldunum. Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik lýsti í dag gjörðum sínum og hugarástandi þann 22. júlí í smáatriðum, en þótt gefið væri færi á því ákvað enginn að yfirgefa réttarsalinn.

Caroline Winge frá Þrándheimum faldi sig í kæliskáp þegar Breivik hóf skothríð á Útey þann 22. júlí í fyrra og komst þannig undan á meðan tugir vina hennar í ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins voru skotnir. Hún hefur fylgst með réttarhöldunum yfir Breivik alla vikuna, ásamt öðrum úr ungliðahreyfingunni í Þrándheimum, þar sem þeim er sjónvarpað á stórum skjá. 

Auðvitað er erfitt að sitja og hlusta á útskýringar hans. En ég var líka búin að  búa mig undir það áður en réttarhöldin hófust," segir Winge í samtali við NRK í dag. Í upphafi ætlaði hún ekki að fylgjast með réttarhöldunum en svo skipti hún um skoðun. 

Ég var hrætt um að fá bakslag við að heyra frásögn hans á því sem gerðist. Ef ég hefði beðið í 10 ár, og svo lesið um málið á netinu, þá hefði ég örugglega farið illa út úr því," segir hún. Í staðinn finnst henni rétt að fylgja málinu alla leið til enda nú. „Ég vil vinna úr þessu núna. Klára þetta og snúa svo baki við því."

Þótt henni finnist ógeðslegt að horfa á morðingjann sitja ískaldan í salnum og útskýra mál sitt, segir hún að það sé líka á vissan hátt gott. "Það er gott að heyra útskýringar hans. Þannig næ ég að fylla upp í götin. Því ég er með svo margar spurningar um það sem gerðist nú fæ ég svör."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert