Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik lýsti því á hrollvekjandi hátt í réttinum í dag hvernig hann tók fólkið af lífi í Útey þann 22. júlí í fyrra.
„Ég lyfti byssunni upp og skaut hann í höfuðið,“ sagði Breivik í réttarsalnum í dag þegar hann lýsti því hvernig hann myrti fyrsta fórnarlamb sitt á eyjunni. Hann skaut 69 til bana á eyjunni eftir að hafa myrt átta manns í sprengjutilræði á stjórnarráðsbyggingar í Ósló fyrr um daginn.
Enginn yfirgaf réttarsalinn þrátt fyrir viðvaranir
Áður en Breivik hóf að lýsa atburðunum í Útey í réttarsalnum í dag varaði hann áhorfendur við því að ef þeir vildu ekki hlýða á hann lýsa hryllingnum í smáatriðum þá skyldu þeir yfirgefa réttarsalinn. Enginn yfirgaf salinn þrátt fyrir þessi orð fjöldamorðingjans en fjölmargir ættingjar fórnarlambanna voru viðstaddir í dag sem og fólk sem lifði af voðaverk Breiviks í Útey.
Breivik lýsti því í smáatriðum för sinni í eyjuna og komunni þangað og sagði mínúturnar sem fóru í að ákveða hvort hann ætti að skjóta eða ekki hafi virst sem heilt ár. Hundruð radda hafi farið í gegnum höfuð hans sem sögðu: Ekki gera það, ekki gera það.
Eftir fyrsta morðið varð ekki aftur snúið
En eftir að hafa tekið byssuna upp og skotið fyrsta fórnarlambið, lögreglumann sem var á frívakt og yfirmann sumarbúðanna, var ekkert hik lengur á honum. Hann lýsti því hvernig hann hafi gengið í rólegheitum að matsalnum sem var fullur af fólki og skotið þar ellefu manns. „Ég hugsaði. Nú ætla ég inn í þessa byggingu og taka eins marga af lífi og ég get,“ sagði Breivik við réttarhöldin í dag. Á meðan hann lýsti voðaverkum sínum grétu fjölmargir í réttarsalnum.
Ég skaut þau öll
Hann segir að margir hafi æpt og beðið hann um að hlífa sér. Einhverjir hafi hins vegar verið sem lamaðir og ekki einu sinni flúið þegar hann varð að gera hlé á skotárásinni til að hlaða byssuna. Breivik hóf síðan að skjóta á annan hóp í matsalnum. „Ég veit ekki hvers vegna það var enn fólk í herberginu á þessum tíma,“ sagði Breivik í dag og bætti við: „Ég skaut þau öll.“
Fjölmörg fórnarlamba hans voru skotin ítrekað og útskýrði Breivik það með þeim hætti að hann hafi viljað tryggja að þau myndu deyja. Að það væri enginn að þykjast vera dáinn líkt og hann hafi tekið eftir. „Þess vegna skaut ég svo oft.“
Hann rifjaði upp fyrir dómi í dag hvernig hann hafi heyrt strák kallað á stelpu og sagt henni að hlaupa. „Hann hrópaði: hlauptu, hlauptu. Ég man að ég beindi byssunni í átt að honum og skaut hann í höfuðið.“ Hann bætti því við að hann hefði skotið þau bæði nokkrum sinnum.
Breivik tók það hins vegar fram í miðjum hryllingnum í dag að hann væri ekki samviskulaus því hann hafi ekki skotið ungan dreng og og unga stúlku þar sem hann taldi að þau væru yngri en sextán ára. Yngsta fórnarlamb hans þennan dag var nýorðið fjórtán ára gamalt.