Dularfullur húðsjúkdómur í Víetnam

Víetnamskir bændur að störfum á hrísgrjónaakri.
Víetnamskir bændur að störfum á hrísgrjónaakri. Reuters

Víetnamar óska nú eftir alþjóðlegri aðstoð við að komast að því hvað veldur óvenjulegum húðsjúkdómi sem komið hefur upp í landinu og dregið 19 manns til dauða. Yfir 170 manns hafa sýkst í héraðinu Quang Ngai í Mið-Víetnam. Sjúkdómurinn byrjar með útbrotum á höndum og fótum en endar með því að lifur og önnur líffæri gefa sig.

Heilbrigðisráðuneyti Víetnams hefur ekki tekist að greina upptök sjúkdómsins, en fyrstu tilfelli hans komu upp á tímabilinu frá apríl fram í desember 2011. Eftir það virtist útbreiðsla hans hafa hætt þar til í síðasta mánuði að ný smit komu upp.

Heilbrigðisstarfsfólk segir að sjúklingar bregðist vel við meðferð á fyrstu stigum sjúkdómsins, en hinsvegar sé erfitt að veita lækningu þeim sem hafa hann á þróaðra stigi. Sjúkdómurinn hefur valdið talsverðum ótta meðal fátækra þorpsbúa í fjalllendi Quang Nai og hafa þeir m.a. gripið til þess ráð að setja upp vegatálma til að reyna að hindra umferð fólks svo sjúkdómurinn berist ekki víðar.

Í víetnömskum fjölmiðlum er í dag haft eftir yfirvöldum í Quang Nai-héraði að eiturefni kunni að vera orsök húðsjúkdómsins, en heilbrigðiseftirlitið vill eki segja af eða á fyrr en fyrstu niðurstöður rannsókna liggja fyrir innan 10 daga. Óskað verður eftir því að Bandaríska smitsjúkdómamiðstöðin og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin komi til aðstoðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert