Kjörklefar hafa nú verið opnaðir í forsetakosningunum í Frakklandi, sem eiga sér stað á erfiðum tíma í efnahag landsins vegna kreppunnar á evrusvæðinu og mikils atvinnuleysis.
Nicolas Sarkozy, sem sækist eftir endurkjöri, segist vera sá eini sem geti viðhaldið „sterku Frakklandi“ en helsti andstæðingur hans, sósíalistinn Francois Hollande, segir að nú sé „komið að vinstrimönnum að stjórna“.
Frambjóðendur eru 10 í heild en ljóst er að slagurinn er milli Sarkozys og Hollandes. Ef enginn hlýtur meira en 50% atkvæða verður önnur umferð hinn 6. maí. Sarkozy, sem setið hefur í embætti frá árinu 2007, hefur heitið því að draga úr fjárlagahalla Frakklands og að skattleggja franska ríkisborgara sem flýja með auð sinn annað til að sleppa undan skatti. Hann hefur einnig hótað því að yfirgefa Schengen-svæðið ef aðrar aðildarþjóðir geri ekki meira til að draga úr straumi innflytjenda frá löndum utan Evrópu, en slíkt höfðar mjög til kjósenda á hægri vængnum.
Hollande hefur á hinn bóginn heitið því að hækka skatta á stórfyrirtæki og einstaklinga sem þéna yfir eina milljón evra á ári. Hann vill hækka lágmarkslaun, ráða 60.000 fleiri kennara til ríkisins og lækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 60 ár fyrir ákveðna verkamenn.
Hljóti hann kjör verður Hollande fyrsti forseti Frakklands af vinstri vængnum í Frakklandi síðan Francois Mitterrand gegndi embættinu í tvö sjö ára kjörtímabil, frá 1981 til 1995. Tapi Sarkozy verður hann jafnframt fyrsti forsetinn sem ekki er kjörinn til annars tímabils síðan Valery Giscard d'Estaing tapaði fyrir Mitterrand árið 1981.
Kjörtímabil franskra forseta er nú fimm ár. Fyrstu tölur verða birtar um klukkan 19 að staðartíma, 18 að íslenskum tíma.