Zimmerman segist saklaus

George Zimmerman.
George Zimmerman. Reuters

George Zimmerman, sem ákærður er fyrir að hafa skotið Trayvon Martin, 17 ára þeldökkan ungling í bænum Sanford í Flórída, segist saklaus af ákærum.

Zimmerman gengur laus eftir að hafa reitt fram tryggingu að upphæð 150 þúsund Bandaríkjadollara. Hann er talinn hafa yfirgefið ríkið vegna ótta um eigin öryggi, en honum hafa borist fjölmargar hótanir vegna þessa.

Martin var á leið úr 7-Eleven-verslun að kvöldlagi í ausandi rigningu þegar hann vakti athygli Zimmermans, sem er foringi í nágrannavaktinni í bænum Sanford. Zimmerman hringdi í neyðarnúmer lögreglu og sagðist hafa komið auga á „verulega grunsamlegan“ mann, samkvæmt afriti af samtalinu, sem hefur verið birt.

Zimmerman var sagt að lögregluþjónar yrðu sendir á staðinn og hann var beðinn um að halda kyrru fyrir. Hann sinnti því ekki, elti drenginn og skaut hann. Zimmerman ber fyrir sig sjálfsvörn, en drengurinn var óvopnaður.

Málið hefur vakið mikla reiði víða í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert