Serbinn Milorad Pelemis, sem norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik segist hafa hitt í Líberíu, segir fullyrðingar Breiviks fjarstæðu. Bosnískt dagblað heldur öðru fram og segir hann hafa verið í Líberíu á sama tíma og Breivik.
„Þetta er rugl. Ég hef aldrei hitt hann, ég hef aldrei verið í Líberíu. Þetta eru falskar ásakanir, ég er heiðarlegur maður og hef engu að leyna,“ sagði Pelemis við norska blaðið Dagbladet, sem fór á stúfana og hafði uppi á honum í borginni Belgrad.
Breivik fór til Líberíu árið 2002. Við yfirheyrslurnar í síðustu viku sagði hann að erindi sitt þangað hefði verið að hitta serbneska stríðshetju til skrafs og ráðagerða, en téð hetja hefði verið á flótta frá Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag. Hann sagði að litið væri á þennan mann sem þjóðhetju vegna baráttu sinnar við múslíma.
Hann sagðist telja að fundur þeirra hefði átt sér stað í Líberíu vegna þess að mótaðilinn hefði litið á það sem próf á staðfestu hans varðandi málstaðinn og ýjaði að því að Serbinn hefði verið samverkamaður sinn.
Pelemis var yfirmaður í serbneska hernum og framdi herdeild hans ýmis voðaverk í Bosníustríðinu. Hann hefur ekki verið kallaður fyrir dómstólinn, en nafn hans hefur ítrekað komið fram í vitnaleiðslum vegna stríðsins. Vitað er að félagar hans í hernum fóru til Líberíu sem málaliðar og að hann var staddur í Líberíu á sama tíma og Breivik.
Svein Holden, ríkissaksóknari í Noregi, segir lögreglu upplýsta um málið og fljótlega verði ákveðið með næstu skref.