Konungur Svasílands, Mswati III, fékk þotu í 44 ára afmælisgjöf þrátt fyrir að smáríkið glími við mikla fjárhagserfiðleika. Þetta sagði forsætisráðherra landsins í útvarpsviðtali í dag.
Að sögn forsætisráðherrans Barnabas Dlamini á konungurinn nú McDonnell Douglas DC-9 þotu sem verður til afnota fyrir hann og þrettán eiginkonur hans. „Ríkisstjórninni hlotnast sá heiður að tilkynna þjóðinni að konungurinn hefur fengið að gjöf DC-9 flugvél frá vinum og velunnurum sem hans hátign getur notað á ferðalögum sínum erlendis,“ sagði Dlamini.
Mswati hélt upp á afmælið sitt í síðustu viku með veislu sem kostaði um 50 milljónir króna og ríkið greiddi að hluta. Samkvæmt Forbes-tímaritinu er hann í 15. sæti yfir ríkustu konungbornu þjóðhöfðingja heims. Persónulegar eignir hans eru metnar á rúma 12 milljarða króna en Svasíland er eitt fátækasta ríki heims.