Romney og Paul einir eftir

Newt Gingrich.
Newt Gingrich. AFP

Newt Gingrich, frambjóðandi í forkosningum repúblikana fyrir forsetakosningarnar, hefur ákveðið að draga sig í hlé og lýsa yfir stuðningi við Mitt Romney, sem hefur tryggt sér útnefninguna eftir sigur í forkosningum í fimm ríkjum í gær og hefur alls sigrað í forkosningum í 23 ríkjum og tryggt sér atkvæði 724 kjörmanna af þeim 1.144 sem þarf til að hljóta útnefningu.

Þetta tilkynnti talsmaður Gingrich í dag og sagði að hann myndi halda síðasta kosningafund sinn í Washington 1. maí og þar myndi hann tilkynna þetta formlega.

Dagblaðið The New York Times greinir frá því í dag að Gingrich hafi hringt í Romney til að segja honum að frá og með næstu viku myndi hann einbeita sér við að afla atkvæða fyrir hann. Gingrich hefur verið undir miklum þrýstingi um að hætta baráttunni eftir að Rick Santorum, sem framan af var helsti keppinautur Romneys, dró sig í hlé.

Romney er þegar farinn að haga sér eins og forsetaframbjóðandi, þó að útnefningin verði ekki fyrr en í ágúst, og gagnrýnir Obama forseta harkalega.

Ron Paul, sem tilheyrir frjálslyndari væng Repúblikanaflokksins, er enn í framboði, en möguleikar hans á að hljóta útnefningu eru engir og talið tímaspursmál hvenær hann stígi til hliðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert