Anders Behring Breivik telur að fyrsta skýrslan sem gerð var um geðheilsu hans hafi verið pöntuð af ríkisstjórninni og að geðlæknarnir hafi verið í tilfinningalegu ójafnvægi þegar þeir skrifuðu hana. Þetta sagði Breivik fyrir dómnum í morgun þegar hann fékk að veita andsvör matinu um ósakhæfi hans.
„Þegar ég las þetta hugsaði ég með mér að þetta fólk ætti heima á geðveikrahæli og ætti að loka inni með það sama," sagði Breivik fyrir dómnum. Samkvæmt NRK.no heldur hann því fram að 80% af innihaldi skýrslunnar sé uppspuni frá rótum. Aðspurður hvers vegna þaulreyndir geðlæknar ættu að ljúga í svo mikilvægu verkefni svaraði Breivik því til að hann hefði fimm kenningar um það, en sú líklegasta væri sú að geðlæknarnir hafi verið í tilfinningalegu ójafnvægi vegna atburðanna 22. júlí þegar þeir skrifuðu skýrsluna.
Skilgreinir sjálfan sig sem hægri öfgamann
Hinar kenningarnar sem hann setti fram eru þær að geðlæknarnir, Torgeir Husby og Synne Sørheim, hafi viljað forða því að fleiri aðhylltust hugmyndafræðinni baki morðunum með því að „brennimerkja sölumanninn". Að fjárhagslegt ósjálfsstæði geðlæknanna hafi ráðið niðurstöðunni, að þau hafi stjórnast af hefnigirni eða þá að ríkisstjórnin hafi pantað niðurstöðuna fyrir fram. Þetta kemur fram á vef NRK.no.
Þegar Svein Holden spurði Breivik hvort skrif geðlæknanna væru virkilega svona röng svaraði hann: „Það hvernig þau setja þetta fram er alveg fáránlegt. Þau skrifa að ég vilji frelsa Evrópu. Ég hef aldrei notað orðið frelsun." Hið rétta orðalag sé að hann sé „pólitískur hægri öfgamaður sem vilji taka pólitíska aðgerðarsinna af lífi".