Talið er að um 40 þúsund manns hafi komið saman á Youngstorgi í Ósló í dag til að taka þátt í fjöldasöng. Fólkið, veifandi fánum og rósum, söng þjóðlagið Börn regnbogans (n. Barn av regnbuen) sem Anders Behring Breivik segist ekki þola þar sem það sé áróður fyrir marxisma.
Youngstorg er skammt frá dómshúsinu þar sem réttað er yfir Breivik. Lillebjørn Nilsen, sem gerði þjóðlagið frægt á sínum tíma, leiddi sönginn en meðal þeirra sem voru mættir voru leikskóla- og grunnskólabörn. Öll hersingin gekk síðan hægum skrefum að dómshúsinu, enn syngjandi lagið, og lagði rósir við öryggistálma umhverfis bygginguna, til minningar um fórnarlömb Breiviks.