Alþjóðaglæpadómstólinn í Haag telur að það sé hafið yfir allan vafa að Charles Taylor, fyrrverandi leiðtogi Líberíu, beri ábyrð á glæpaverkum sem voru unnin í borgarastíði í Sierra Leone á árunum 1989 til 2003. Ákvörðun um refsingu verður tekin 30. maí nk.
Taylor var ákærður fyrir hryðjuverk, morð, nauðganir og pyntingar. Hann var sakaður um að hafa keypt vopn handa uppreisnarmönnum í grannríkinu Sierra Leone með illa fengnum „blóðdemöntum“. Hann stofnaði m.a. herflokka skipaða börnum. Dómstóllinn taldi að saksóknara hefði tekist að sanna það sem hann var sakaður um.
Margir íbúar í Líberíu og Sierra Leone hlustuðu á beina útsendingu frá dómstólnum, en það var Richard Lussick, forseti dómsins, sem las upp niðurstöðuna.
Réttarhöldin stóðu yfir í tæplega fjögur ár. Yfirheyrslur yfir Taylor stóðu yfir í sjö mánuði. Fjöldi vitna kom fyrir dóminn, m.a. breska fyrirsætan Naomi Campbell sem fékk nokkra óslípaða demanta að gjöf sem taldir eru vera frá Taylor.
Taylor er fæddur í janúar 1948 og var forseti Líberíu 1997 til 2003. Taylor fór fyrir innrás uppreisnarmanna í Líberíu 1989. Tveimur árum síðar hófst vopnuð uppreisn í Síerra Leóne sem hann studdi. Við tók tíu ára blóðugt borgarastríð, en talið er að tugir þúsunda manna hafi týnt lífi í átökum sem Taylor átti aðild að í ríkjunum tveimur á árunum 1989 til 2003.
Aldrei áður hefur þjóðarleiðtogi frá Afríku verið dreginn fyrir alþjóðlegan dómstól. Taylor neitaði öllum sakargiftum og kvaðst engan þátt hafa átt í grimmdarverkum skæruliða byltingarhreyfingarinnar RUF í borgarastyrjöldinni. Hann hélt því fram að hann hefði þvert á móti lagt sig fram um að ná samkomulagi um frið í landinu. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Taylor hefði vissulega tekið þátt í friðarviðræðum, en hann hefði samhliða bak við tjöldin hvatt til áframhaldandi átaka og ofbeldisverka.
Skæruliðar RUF-hreyfingarinnar voru illræmdir fyrir að höggva hendur og fætur af almennum borgurum með sveðjum.