Bresk þingmannanefnd fer fram á harðari reglur um hvernig neyðarsjóði Evrópusambandsins skuli varið. Ný skýrsla sýnir að meira en helmingur hans rennur til þeirra landa þar sem tekjur eru í meðallagi, einungis 46% til landa sem eru í þörf fyrir fjárhagsaðstoð af þessu tagi.
Nefndin segir að háar fjárhæðir renni til Serbíu og Tyrklands, þar sem lítil sem engin neyð sé.
„Breskir skattgreiðendur vilja að féð fari til þeirra sem þurfa á því að halda, til landa þar sem fólk á virkilega erfitt með að láta enda ná saman,“ segir Malcolm Bruce, formaður nefndarinnar.
Samkvæmt skýrslunni þáðu Tyrkir 222 milljónir evra frá ESB árið 2010 og Serbar fengu 178 milljón evrur.
Bretar lögðu 1,23 milljarða evra í neyðarsjóðinn árið 2010 og í skýrslunni segir að Bretar ættu að beita þunga sínum í að sjá til þess að fénu sé varið á skynsamlegri hátt.