Syngja lag sem Breivik þolir ekki

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. NTB SCANPIX

Þúsundir Norðmanna ætla að safnast saman á torgi nærri dómshúsinu í Osló í hádeginu og syngja þjóðlagið Börn regnbogans (n. Barn av regnbuen) sem Anders Behring Breivik þolir ekki og álítur áróður fyrir marxisma.

Þessi uppákoma var skipulögð á Facebook og hafa yfir fimm þúsund manns tilkynnt á síðunni að þeir hyggist mæta. Þá ætla menningarmálaráðherrar allra Norðurlandanna, þ.á m. Katrín Jakobsdóttir, að taka þátt í fjöldasöngnum en hann leiðir norski þjóðlagasöngvarinn Lillebjørn Nilsen sem gerði lagið frægt á sínum tíma. Boðað hefur verið til fjöldasöngs víðsvegar annars staðar í Noregi í dag.

Breivik sagði fyrir dómi á föstudaginn að Nilsen væri „mjög gott dæmi um marxista“ og væri lagið dæmi um „heilaþvott á norskum ungmennum.“ Í kjölfar ummælanna hófu tveir Norðmenn herferðina á Facebook. „Mér leið eins og hann væri að traðka á lagi sem ég ólst upp við og syng fyrir barnið mitt,“ sagði Lill Hjønnevåg, annar skipuleggjendanna, við norska ríkissjónvarpið NRK.

Um er að ræða norska útgáfu af „My Rainbow Race“ eftir bandaríska þjóðlagasöngvarann Pete Seeger. Í viðlaginu er sungið: „Saman munum við lifa, sérhver systir og sérhver bróðir, lítil börn regnbogans og grænnar jarðar.“

Nilsen hafnar túlkun Breiviks á laginu. „Það er ekki um fólk heldur að vernda umhverfið,“ sagði hann við dagblaðið Aftenposten.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert