Mikilvæg skilaboð til stríðsherra

Alþjóðleg mannréttindasamtök fögnuðu í gær dómi stríðsglæpadómstóls í Haag yfir Charles Taylor, fyrrverandi forseta Líberíu, sem var dæmdur sekur um aðild að stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni.

Charles Taylor var einn af illræmdustu stríðsherrum Afríku áður en hann var forseti Líberíu 1997-2003. Hann fór fyrir uppreisnarmönnum í heimalandi sínu 1989-1996 og átti einnig stóran þátt í borgarastríði í grannríkinu Síerra Leóne 1991-2001. Stríðin kostuðu samtals um 400.000 manns lífið.

Börn hneppt í ánauð

Ákærurnar snerust um ólýsanleg grimmdarverk sem framin voru í borgarastríðinu í Síerra Leóne. Á meðal þeirra sem börðust í stríðinu voru mörg börn sem uppreisnarmenn hnepptu í ánauð og gerðu að miskunnarlausum vígamönnum í þjálfunarbúðum, m.a. með því að dæla í þau eiturlyfjum og áfengi. Uppreisnarmennirnir myrtu þúsundir manna, m.a. mörg börn, og hjuggu fætur og hendur af þúsundum annarra með öxum og sveðjum. Börn voru send með strigapoka til að fremja grimmdarverkin og ef pokarnir voru ekki fullir af útlimum var börnunum refsað. Fólk var einnig hneppt í þrældóm í demantanámum á yfirráðasvæðum uppreisnarmannanna.

Taylor var dæmdur sekur um að hafa séð illræmdri uppreisnarhreyfingu í Síerra Leóne, RUF, fyrir vopnum og fengið fyrir það svonefnda „blóðdemanta“ sem voru notaðir til að kaupa vopn í því skyni að halda áfram blóðsúthellingunum.

Þetta er í fyrsta skipti sem alþjóðlegur dómstóll dæmir fyrrverandi þjóðhöfðingja fyrir stríðsglæpi frá Nürnberg-réttarhöldunum eftir síðari heimsstyrjöldina þegar réttað var yfir Karl Dönitz sem var forseti Þýskalands í rúmar þrjár vikur eftir að Hitler fyrirfór sér.

Mannréttindasamtök sögðu að dómurinn yfir Taylor væri mjög sögulegur. „Þetta er ótrúlega mikilvæg ákvörðun,“ hafði fréttavefur breska ríkisútvarpsins eftir Elise Keppler, talsmanni Human Rights Watch. „Þetta er tímamótadagur.“

Talsmaður Amnesty International í Síerra Leóne sagði að með dómnum hefði dómstóllinn í Haag sent stríðsherrum og harðstjórum í Afríku mikilvæg skilaboð. Hann bætti þó við að mál Taylors væri aðeins „toppurinn á ísjakanum“ því enn ætti eftir að rannsaka mál fjölmargra annarra sem grunaðir væru um að hafa tekið þátt í grimmdarverkunum.

Dómstóllinn í Haag var stofnaður sérstaklega til að fjalla um stríðsglæpi í Síerra Leóne. Hann kveður upp refsidóm í máli Taylors 30. maí. Verði hann dæmdur í fangelsi er gert ráð fyrir því að hann afpláni dóminn í Bretlandi.

Taylor er 64 ára og nam hagfræði í Bandaríkjunum áður en hann sneri aftur til Líberíu árið 1980. Hann er baptisti og var um tíma leikpredikari. Áður en hann varð forseti er talið að hann hafi dvalið í nokkur ár í Líbíu og nánustu hernaðarráðgjafar Muammars Gaddafis hafi þjálfað hann í skæruhernaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert