Bandarísk stjórnvöld beiti sér gegn hvalveiðum

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun í Bandaríkjunum eru 77% þarlendra kjósenda hlynntir því að bandarísk stjórnvöld taki upp víðtæka friðun á hvölum og 89% telja að bandarískir ráðamenn ættu að taka þátt í að viðhalda alþjóðlegu banni við hvalveiðum í atvinnuskyni.

Þá styðja 78% bandarískra kjósenda að háttsettir ráðamenn í Bandaríkjastjórn tali opinberlega gegn hvalveiðum Japana, Norðmanna og Íslendinga. 62% sögðu ennfremur að þau myndi vera líklegri til þess að kjósa forsetaframbjóðanda sem tæki harða afstöðu gegn hvalveiðum í atvinnuskyni.

Haft er eftir Joel Benenson, forstjóra Benenson Strategy Group sem framkvæmdi könnunina, á fréttavefnum The Sacramento Bee að sjaldan mældist jafn mikill stuðningur við eitthvað málefni þvert á kjósendur stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum. Kjósendur allra flokka vildu greinilega að stjórnvöld í Washington beittu sér í þessum efnum.

Frétt Sacramento Bee

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert