Forsetaframbjóðandi franskra sósíalista, Francois Hollande, hét áheyrendum sínum á kosningafundi í dag að hann myndi ekki fallast á málamiðlanir varðandi stefnumál sín. Kosið verður á milli Hollande og Nicolasar Sarkozy, forseta Frakklands, í annarri umferð forsetakosninganna 6. maí næstkomandi.
Fram kemur í frétt Reuters-fréttaveitunnar að báðir frambjóðendurnir hafi reynt að höfða til fylgis Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar (National Front), sem varð í þriðja sæti í fyrstu umferð kosninganna en þar hlaut hún um 18% fylgi.
Hollande hlaut sem kunnugt er mest fylgi í fyrri umferðinni en Sarkozy varð í öðru sæti en sitjandi forseti hefur ekki áður orðið í öðru sæti í fyrri umferð forsetakosninga í Frakklandi samkvæmt fréttinni.
Sarkozy hefur lagt alla áherslu á að brúa bilið á milli hans og Hollande en skoðanakannanir benda þó til þess að Hollande muni bera sigur úr býtum og verða næsti forseti Frakklands.