Pólitískir fangar í Austur-Þýskalandi voru á áttunda og níunda áratug síðustu aldar notaðir í þrælkunarvinnu við að framleiða vörur sænska húsgagnaframleiðandans IKEA.
Þetta kemur fram í sænskum sjónvarpsþætti á stöðinni SVT sem sýndur verður á miðvikudag.
Rannsóknarblaðamaður þáttarins, sem kallast Uppdrag Granskning, hefur fundið skjöl hjá leyniþjónustunni Stasi sem staðfesta þetta. IKEA segist vera að skoða málið.
„Við höfum beðið um skjöl frá Stasi og erum að taka viðtöl við fólk sem var hjá IKEA á þessum tíma,“ segir talsmaður IKEA, Jeanette Skjelmose. „Enn sem komið er eru engar vísbendingar um að við höfum beðið um að fangar yrðu notaðir við framleiðslu okkar eða að við höfum haft vitneskju um slíkt.“
Hún segir að verið sé að rannsaka hvort fangar hafi engu að síður verið notaðir við framleiðsluna, án vitundar IKEA.
IKEA er stærsti húsgagnaframleiðandi í heimi. Hjá fyrirtækinu vinna 131 þúsund manns.
Sjá sýnishorn úr þættinum hér.