Samkvæmt upplýsingum í skýrslu frá breska þinginu í dag mun Rupert Mudoch hafa gert sitt besta til að vita ekki af símhlerunum blaðsins News of the World og var að mati skýrsluhöfunda ekki fær til að stjórna stórfyrirtæki.
„Við komumst að þeirri niðurstöðu að Rupert Murdoch hafi ekki verið fær til þess að reka stórt alþjóðlegt fyrirtæki,“ segir í niðurstöðum þverpólitískrar þingnefndar sem fjallaði um símahleranir blaðsins.
Löggjafinn komst að því að útgáfufyrirtæki Murdochs, News International, hafi afvegaleitt breska þingið og viljandi reynt að hylma yfir, fremur en að ná fram því sem rangt hafi verið gert hjá fyrirtækinu
„Murdoch þarf að taka ábyrgð á því að hafa vísvitandi reynt að sjá ekki hið ranga sem gert var innan fjölmiðlaveldis hans,“ segir í skýrslunni sem lengi hefur verið beðið eftir.
Hlerunarmálið varð til þess að Murdoch fjölskyldan hætti útgáfu News of the World í júlí á síðasta ári.
Í 121 blaðsíðna skýrslu þingsins og þingnefndarinnar segir að stjórnendur fyrirtækisins hafi afvegaleitt þingið varðandi gögn og sannanir.
Hin 11 manna þingnefnd segir að það sé nú neðri deildar breska þingsins að ákveða hvaða refsing væri við hæfi við þeirri vanvirðingu sem nefndinni hefur verið sýnd.
Í skýrslunni segir að þingnefndir verði að geta treyst á heiðarleika og skilvirkni varðandi þau gögn sem lögð séu fram.
„Hegðun News International og ákveðin vitni í þessu máli hafa sýnt okkar kerfi einstaka fyrirlitningu á blygðunarlausan máta,“ segir einnig í skýrslunni.
Þar segir: „Rupert Murdoch gerði engar ráðstafanir til að verða að fullu upplýstur um símahleranirnar, heldur sneri hann blinda auganu og gerði sitt besta til að sjá ekki hvað var að gerast í fyrirtækjum sínum og útgáfuritum.“
„Þessa ómenningu teljum við hafa smitast niður fyrirtækið frá stjórnendum þess.“
News of the World var lokað eftir að símahleranamálið komst í hámæli, en í því komst upp að talhólf skólastúlku, sem síðar fannst látin, hafði verið hlerað.
Yngsti sonur Murdoch, James, var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri News International. Feðgarnir gáfu báðir skýrslur þann 19. júlí á síðasta ári, en þá var einnig ráðist á þann yngri af þekktum grínista með raksápuböku.
Þingnefndin heyrði einnig vitnisburði frá framkvæmdastjórum News International.
Í skýrslunni kemur fram að Les Hinton, fyrrverandi stjórnarformaður News International, Tom Crone, fyrrverandi aðallögfræðingur og Colin Myler, síðasti ritstjóri News of the World hafi allir misleitt þingnefndina.
„Stjórnendur News of the World og News International afvegaleiddu þingnefndina sameiginlega varðandi hið rétta í þessari innri rannsókn á fyrirtækjasamsteypunni og neituði að eiga nokkurn þátt í símhlerunum,“ segir í skýrslunni.
Þetta var gert með með því að „gefa út yfirlýsingar sem stjórnendurnir máttu vita að voru ekki að fullu sannar og með því að neita að birta skjöl sem hefðu getað hjálpað við að komast að sannleikanum í málinu,“ sagði nefndin.
Þeirra ætlan var að hylma yfir fremur en að draga fram hið ranga og aga gerendur, eins og þau sögðust ætla að gera eftir að ákærurnar voru bornar fram.
„Með því að svíkjast undan því að rannsaka almennilega og með því að horfa fram hjá sönnunum af óheiðarlegum vinnubrögðum, ættu stjórnendur fyrirtækisins, þar á meðal Rupert Murdoch og James Murdoch, að taka strax ábyrgð á gjörðum sínum.“
Í skýrslunni segir að „í það heila sýni þetta fram á algjört fall í fyrirtækjastjórnun.“