Óútskýrt andlát njósnara í tösku

Gareth Williams var 31 árs þegar hann lést.
Gareth Williams var 31 árs þegar hann lést.

Eftir sjö daga réttarhald komst dómari í London að þeirri niðurstöðu að miklar líkur séu á að andlát breska njósnarans Gareth Williams hafi borið að með ólögmætum hætti, en ekki liggi fyrir nægilegar sannanir um hvernig hann dó eða hvers vegna.

Dauði Williams hefur vakið margar spurningar, en vonast var eftir að í réttarhaldinu kæmu fram einhver svör um hvað gerðist. Fá svör fengust og telur dómarinn ólíklegt að nokkru sinni verði upplýst hvað gerðist.

Willimas var 31 árs gamall þegar hann lést í júlí 2010. Hann starfaði hjá bresku leyniþjónustunni MI6. Nakið lík Williams fannst í íþróttatösku í baðkari í íbúð hans. Taskan var lokuð með rennilás. Talið er að líkið hafi verið í töskunni í nokkra daga áður en það fannst.

Eitt af því sem reynt var að svara í réttarhaldinu hvort Williams hafi mögulega getað farið sjálfur í töskuna og rennt fyrir. Í frétt BBC um málið segir að maður, sem hafi þekkingu á þessu sviði, hafi gert 300 tilraunir misheppnaðar til að koma sér fyrir í töskunni og loka henni sjálfur innan frá.

Lík Williams var það illa farið þegar það fannst að erfitt reyndist að gera rannsókn á því hvort einhver eiturefni væru í líkama hans. Dómarinn taldi þó líklegast að eitrað hafi verið fyrir honum. Ekki er talið útilokað að Williams hafi látist úr súrefnisskorti í töskunni.

Fjölskylda Williams er sannfærð um að hann hafi verið myrtur.

Dómarinn sem rannsakaði dauða Williams gagnrýndi leyniþjónustuna fyrir að spyrjast ekki fyrir um hann þegar hann mætti ekki í vinnuna. Hann átti að mæta á þrjá tiltekna fundi dagana áður en lík hans fannst. Einnig kom fram við réttarhaldið að leyniþjónustan hafði í höndum tilteknar upplýsingar um Williams en lét þær ekki af hendi þrátt fyrir að ítarleg rannsókn stæði yfir á dauða hans.

Dómarinn sagði líklegt að einhver byggi yfir upplýsingum um hvernig Williams lést og skoraði á viðkomandi að gefa sig fram.

Williams fannst nakinn í tösku af þessari gerð. Taksan var …
Williams fannst nakinn í tösku af þessari gerð. Taksan var í baðkari á heimili hans.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert