Sænski herinn gæti ekki varið Svíþjóð ef þörf gerðist á því að mati sérfræðinga sem segja að skortur sé meðal annars á vörnum gegn geislavirkni og efnavopnum auk þess sem ekki sé nauðsynlegur útbúnaður fyrir hendi til þess að geta sett upp bráðabirgða sjúkrahús ef þess gerðist þörf og ekki nægjanleg þjálfun á áhöfnum björgunarþyrla til þess að bregðast við slíkum aðstæðum.
Þetta er haft eftir varnarmálasérfræðingnum Johan Tunberger á fréttavefnum Thelocal.se en þar kemur ennfremur fram að sænsk stjórnvöld hafi lagt áherslu á að koma á umbótum á sænska hernum en þó án þess að leggja fram aukna fjármuni til þess. Herinn hafi orðið að sýna aðhald eins og margt annað á vegum sænska ríkisins. Tunberger segir að sú stefna sé dæmd til þess að mistakast.
Þá segir að aðhaldsaðgerðir hersins hafi einmitt einkum snúið að því að fresta fjárfestingum í nýrri tækni og búnaði á vegum hans. Fram kemur að fjárheimildir hersins á þessu ári nemi 8,9 milljörðum sænskra króna (rúmlega 165 milljörðum íslenskra króna) sem þýði að hann mun ekki hafa neitt aflögu til fjárfestinga og jafnvel ekki einu sinni geta greitt fyrir pantanir í þeim efnum sem þegar hafi verið gerðar.
Að sögn Tunberger er öryggi Svíþjóðar í hættu án þessara fjárfestinga. Hann segir að sænski landherinn og sjóherinn skorti einnig eldflaugar til þess að verjast loftárásum. Sænsk herskip séu vanbúin vopnum og ekki áreiðanleg ef á þeim þyrfti að halda í sjóorrustu. Lítið gagn sé að því að Svíar eigi eitt hundrað nútíma JAS orrustuþotur ef ekki er hægt að verja flugvelli og herstöðvar fyrir loftárásum.
Vandamálið væri einkum það að Svíar væru hernaðarlega vel undirbúnir á sumum sviðum ekki illa öðrum og að það gengi illa fyrir vikið að sjá til þess að mismunandi svið ynnu saman á ásættanlegan hátt.