Fjölmiðlafrelsi ógnað víða um heim

Ban Ki-moon og Irina Bokova.
Ban Ki-moon og Irina Bokova.

„Tjáningarfelsið er á meðal okkar dýrmætustu réttinda.  Það liggur til grundvallar öllu öðru frelsi og er ein helsta stoð mannlegrar reisnar.“ Þetta kemur fram í sameiginlegu ávarpi Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og Irinu Bokova, framkvæmdastjóra UNESCO, í tilefni af alþjóðadegi fjölmiðlafrelsis sem haldinn er í dag.

„Frjálsir, margradda og óháðir fjölmiðlar eru ómissandi til þess að tjáningarfrelsið fái notið sín.  Þetta er inntak Alþjóðlegs dags fjölmiðlafrelsis. Frelsi fjölmiðla felur í sér frelsi til að hafa skoðanir og leita, sækja og miðla upplýsingum og hugmyndum á hvaða hátt sem er og án tillits til landamæra; eins og kveðið er á um í 19. grein Mannréttindayfirlýsingarinnar. Slíkt frelsi er frumskilyrði heilbrigðs- og kraftmikils samfélags.“

Í ávarpinu segir m.a. að umbreytingarnar í arabaheiminum hafi sýnt hversu sterkt afl felist í þránni eftir réttindum þegar nýir og gamlir fjölmiðlar séu virkjaðir. Nýfengið fjölmiðlafrelsi gefi fyrirheit um umbreytingu samfélaga í krafti gagnsæis og reikningsskila. Vegna þessa sé alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis í ár helgaður þemanu nýjar raddir: Fjölmiðlafrelsi í þágu þjóðfélagsbreytinga. Sagt var frá því á mbl.is í gær að Erítrea sé efst á lista Nefndar til verndar blaðamönnum (e. Committee to Protect Journalists, CPJ) yfir þau lönd þar sem mesta ritskoðunin á fjölmiðlum á sér stað. Norður-Kórea vermir annað sætið og í því þriðja og fjórða eru Sýrland og Íran.

„Fjölmiðlafrelsi er líka ógnað víða um heim. Á síðasta ári fordæmdi UNESCO morð sextíu og tveggja blaðamanna sem týndu lífi vegna starfa sinna. Þessir blaðamenn ættu ekki að gleymast og draga ber fremjendur ódæðisverkanna til ábyrgðar. Fjölmiðlun færist í æ ríkari mæli inn á netið og á sama tíma sæta netblaðamenn, þar á meðal bloggarar, ofríki og árásum og eru jafnvel drepnir starfa sinna vegna. Þá verður að vernda rétt eins og starfsmenn hefðbundinna fjölmiðla.“

Að lokum eru ríki, atvinnufjölmiðlar og óháð félagasamtök hvött til að taka höndum saman við Sameinuðu þjóðirnar í þeirri viðleitni að efla tjáningarfrelsi jafnt á netinu sem utan þess í samræmi við alþjóðlega viðurkennd grundvallarsjónarmið. „Þetta er hryggjarstykki einstaklingsréttinda, grunnur heilbrigðra samfélaga og afl í þágu félagslegra breytinga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert