Eintak af Ópinu, einu frægasta málverki veraldar eftir Edvard Munch, var selt á 120 milljónir dollara á uppboði hjá uppboðshúsinu Sotheby's í New York. Þetta eru um 15 milljarðar króna.
Þessi niðurstaða þýðir að Ópið er dýrasta málverk í heimi. Árið 2010 var myndin Nakin, græn lauf og brjóst, eftir Picasso seld fyrir 106 milljónir dollara.
Ópið var selt á talsvert hærra verði en reiknað hafði verið með, en fyrirfram hafði verið búist er við að Ópið yrði selt á um 80 milljónir dollara. Nokkur tilboð bárust í verkið. Fyrsta tilboð var upp á 50 milljónir dollara.
Norski kaupsýslumaðurinn Petter Olsen á eintakið. Faðir hans var vinur og velgjörðarmaður málarans Edvard Munch. Til eru fjögur eintök af málverkinu sem sýnir mann halda um höfuð sitt og æpa á brú í mögnuðu landslagi. Málverkið er jafnframt ein þekktasta táknmynd angistar sem til er. Eintak Olsen er hið eina sem er í einkaeigu.
Áhrif málverksins eru næstum fordæmalaus og í tilkynningu frá Sotheby's sagði að mögulega væri „einungis Mona Lisa þekktara málverk en Ópið“.
Öðrum eintökum af málverkinu hefur í tvígang verið stolið af söfnum en í bæði skiptin hafa þau fundist aftur.
Munch málaði verkið árið 1895. Hann lýsti innblæstri sínum fyrir gerð myndarinnar í dagbókarfærslu:
„Ég gekk eftir vegi ásamt tveimur vinum - það var sólsetur - skyndilega blóðgaðist himininn - Ég staldraði við, uppgefinn, og hallaði mér að handriði - það voru blóð og eldtungur fyrir ofan blásvartan fjörðinn og borgina - vinir mínir gengu áfram en ég stóð þar nötrandi af örvæntingu - og ég skynjaði óendanlegt óp streyma í gegnum náttúruna.“