Þöggun og skoðanakúgunum er beitt í Aserbaídsjan í aðdraganda Evróvisjónsöngvakeppninnar sem fram fer þar í landi í lok maí. Þetta segja alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International og Human Rights Watch. Segja samtökin stjórnvöld bæla frelsi fjölmiðla í landinu og hafa biðlað til evrópska útvarpssambandsins, European Broadcasting Union (EBU), að taka á málinu.
Segja mannréttindasamtökin að blaðamenn í landinu verði ítrekað fyrir áreiti og ofbeldi.
Amnesty International segir að 18 samviskufangar séu í Aserbaídsjan, þar af séu 14 andófsmenn sem hafi verið fangelsaðir í kjölfar mótmæla, tveir blaðamenn og tveir baráttumenn fyrir mannréttindum.
Segja mannréttindasamtökin að EBU hafi brugðist í því að skerast í leikinn þegar frelsi fjölmiðla er í húfi.
Samtökin Fréttamenn án landamæra segja að fjölmiðlamönnum sé bannað að fjalla um forseta landsins og fjölskyldu hans án leyfis. „Hvað sem er getur komið fyrir þá sem brjóta þetta bann.“