Frakkar kjósa sér í dag forseta landsins. Baráttan hefur verið hörð milli Nicolas Sarkozy, núverandi forseta, og sósíalistans François Hollande. Skoðanakannanir eru bannaðar 32 tímum áður en kjörstaðir eru opnaðir en síðustu kannanir benda til þess að Hollande hafi betur þó að Sarkozy hafi sótt í sig veðrið undanfarna daga.
Kjörstaðir voru opnaðir kl. átta í morgun að staðartíma, 6 að íslenskum tíma. Mikil rigning var við opnun kjörstaða í París en engu að síður er búist við góðri kosningaþátttöku, jafnvel í líkingu við það sem hún var árið 2007 er Sarkozy hafði betur í viðureign sinni við Segolene Royal í síðari umferð kosninganna.
Yfir 46 milljón kjósendur eru á kjörskrá. Kjörstöðum verður lokað kl. 20 í kvöld og verða niðurstöður kynntar strax að því loknu.