Fyrstu tölur benda til þess að Francois Hollande, frambjóðandi sósíalista, hafi sigrað Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í forsetakosningunum sem fram fóru í dag. Samkvæmt tölunum fékk Hollande um 52% atkvæða.
Tölur um sigur Hollande voru birtar áður en kosningastöðum var lokað. Kosningaþátttaka var um 81,5%, en hún var 85,3% í síðustu kosningum.
Sarkozy er fyrsti forseti Frakklands sem nær ekki endurkjöri til annars kjörtímabils síðan Valery Giscard d’Estaing tapaði fyrir Francois Mitterrand í kosningunum 1981. Sautján ár eru síðan vinstrimaður hefur setið í forsetastóli í Frakklandi.
Hollande er 57 ára gamall. Hann er fráskilinn, en fyrrverandi eiginkona hans var Ségolène Royal sem bauð sig fram gegn Sarkozy árið 2007 og tapaði. Þau eiga saman fjögur börn.
Francois Hollande er lítt þekktur utan landamæra Frakklands. Kjör hans er líklegt til að færa umræður á alþjóðavettvangi í annað horf en verið hefur í forsetatíð Sarkozy. Þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafa ráðið ferðinni um hvernig komið skuli á fjármálalegum stöðugleika og hagvöxtur efldur á evrusvæðinu. Lausnir þeirra hafa verið aðhald og niðurskurður ríkisútgjalda til að efla traust fjármálamarkaða. Hollande hafnar þessum leiðum og vill heldur ýta undir hagvöxt með auknum ríkisrekstri og fjárhagslegri fyrirgreiðslu til fyrirtækja. Hann vill breyta og jafnvel varpa stöðugleikasáttmálanum fyrir róða, en talið er að þar muni hann mæta mikilli mótspyrnu frá Merkel. Hans fyrsta verk verður að fara til Berlínar til viðræðna við Merkel. Stjórnmálaskýrendur segja að það gæti orðið spennufundur en Merkel lýsti opinberlega yfir stuðningi við Sarkozy.