Nýnasistar fengu menn á þing

Tveir stærstu stjórnmálaflokkar Grikklands misstu þingmeirihluta sinn í þingkosningunum í landinu í gær. Samanlagt fylgi þeirra var 32,1%, tæpur helmingur þess fylgis sem flokkarnir fengu í síðustu kosningum 2009. Nýnastistar eru sjötti stærsti flokkur landsins.

Pólitísk óvissa ríkir í landinu og margir hafa áhyggjur af áhrifum þessa á stöðu mála á evrusvæðinu.

Búist er við því að Antonis Samaras, formaður Íhaldsflokksins sem fékk flest atkvæði, muni fá stjórnarmyndunarumboð síðar í dag, en sá flokkur var við völd áður ásamt vinstriflokknum Pasok undir forystu  Lucas Papademos.

Þessir tveir flokkar hafa verið valdamestir í grískum stjórnmálum undanfarna fjóra áratugi. Næstflest atkvæði fékk vinstriflokkurinn Syriza, sem meira en þrefaldaði atkvæðafjölda sinn frá síðustu kosningum, og Pasok var sá flokkur sem fékk þriðja mesta atkvæðafjöldann.

„Flokkarnir sem skrifuðu undir viljayfirlýsinguna með ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru núna komnir í minnihluta. Almenningur hefur svipt þá völdum,“ sagði formaður Syriza,  Alexis Tsipras, í gær.

Sjálfstæðir Grikkir, nýr hægriflokkur sem stofnaður var vegna klofnings í Íhaldsflokknum, er fjórði stærsti flokkur landsins eftir kosningarnar og kommúnistaflokkurinn KKE sá fimmti stærsti.

Nýnasistaflokkurinn Hin gullna dögun fékk í fyrsta skipti menn á þing frá lokum herforingjastjórnarinnar árið 1974 og fékk um 7% atkvæða og 20 þingmenn. Leiðtogi flokksins, Nikos Michaloliakos, sagði að flokkurinn myndi beita sér gegn „okurlánurum heimsins“ og þeim þrælaböndum sem hann segir landið hafa verið hneppt í af ESB og AGS. „Tími óttans er runninn upp,“ sagði Michaloliakos.

Mikil reiði er meðal almennings í Grikklandi vegna samninganna við ESB og AGS um niðurskurð í landinu. Endurspegla niðurstöður kosninganna þessa reiði, en þeir flokkar sem bættu við fylgi sitt segjast helst vilja „rífa samkomulagið í tætlur“. Kommúnistaflokkurinn KKE vill að Grikkir hætti með evruna og nýnasistar segja réttast að hætta að greiða skuldirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert