Sósíalistar bjartsýnir

Francois Hollande, nýkjörinn forseti Frakklands.
Francois Hollande, nýkjörinn forseti Frakklands. AFP

Skammt er stórra högga á milli í kosningum í Frakklandi. Frakkar kusu forseta í gær og í næsta mánuði verða þar þingkosningar. Sósíalistar hugsa sér gott til glóðarinnar eftir kjör Francois Hollande í  gær, en þeir hafa ekki átt aðild að ríkisstjórn í áratug.

Þingkosningarnar verða 10. júní og Hollande hvetur sósíalista til að vera flokkshollir. „Það er margt á döfinni á komandi mánuðum, en það sem skiptir mestu máli er að forsetinn sé með þingmeirihluta,“ sagði Hollande skömmu eftir að ljóst varð að hann hafði náð kjöri.

Nathalie Kosciusko-Morizet, talskona Sarkozys, fráfarandi forseta, sagði að of mikil völd væru nú í höndum vinstrimanna og hvatti kjósendur til að „koma jafnvægi á frönsk stjórnmál“ með því að kjósa UMP, flokk Sarkozys, í þingkosningunum.  

„Núna erum við með nýja forsetann, öldungadeild þingsins, meirihluta sveitarstjórna og stjórn margra stórborga; allt er þetta af vinstrivængnum. Það væri óskynsamlegt ef meiri völd væru á hendi eins og sama flokksins,“ sagði hún í viðtali við útvarpsstöðina Europe 1.

Skoðanakannanir sýna að mjótt er á mununum á milli UMP og sósíalista.

En fleiri eru í framboði. Þjóðfylkingin, undir forystu Marine Le Pen, sækir á og sömuleiðis franski kommúnistaflokkurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert