Ætla að tæta í sundur skilyrði ESB og AGS

Forseti Grikklands, Karolos Papoulias, veitti Alexis Tsipras umboð til stjórnmyndunarviðræðna …
Forseti Grikklands, Karolos Papoulias, veitti Alexis Tsipras umboð til stjórnmyndunarviðræðna í gær. Reuters

Grískir kjósendur hafa með atkvæði sínu ógilt lánasamkomulagið við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta segir Alexis Tsipras, leiðtogi bandalags vinstri flokka í Grikklandi sem leiðir nú stjórnarviðræður. Tsipras segir að viðræðurnar byggist á því markmiði að tæta í sundur skilyrði lánaáætlunar ESB og AGS.

Kreppan hefur valdið miklum félagslegum glundroða í Grikklandi og valdið djúpu vantrausti á stjórnmálum. Tsipras hefur þriggja daga umboð frá forsetanum til að mynda ríkisstjórn í Grikklandi. Hann hefur sagt stærstu stjórnmálaflokkunum að ef þeir vilji taka þátt í viðræðunum verði þeir að láta af stuðningnum við hagræðingarkröfur ESB og AGS. 

Evrópuráðið og Þýskaland hafa brugðist við með því að lýsa því yfir að ríki verði að halda sig við ætlaðan niðurskurð. „Það sem evruríkin verða að gera er að vera samkvæm sjálfum sér og innleiða þá stefnu sem þau hafa samþykkt," sagði Jose Manuel Barroso forseti Evrópuráðsins í gær. 

Í ljósi kosninganiðurstaðna bæði Grikklands og Frakklands hefur hinsvegar verið boðaður óformlegur leiðtogafundur innan ESB þann 23. maí, m.a. til að ræða tillögu Francois Hollande nýkjörins Frakklandsforseta, um aukna áherslu á hagvöxt. 

Tsipras mun í dag funda með fulltrúum stóru flokkanna Pasok og Nýtt lýðræði. Náist ekki samkomulag gæti farið svo að kjósa þurfi að nýju í Grikklandi á næstu vikum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert