Kínverjar segjast ætla að rannsaka mjög svo ógeðfellt mál sem upp er komið eftir að tollverðir í Suður-Kóreu haldlögðu töflur sem sagðar eru innihalda duft búið til úr þurrkuðum fóstrum og barnslíkum. Töflurnar eiga að auka kynferðislega nautn.
Málið komst í hámæli á sunnudag en tollverðirnir fundu töflurnar bæði í póstsendingum og í farangri farþega sem voru að koma frá Kína.
Yfirvöld í Kína hafa áður rannsakað slíkar ábendingar og segja að ekkert hafi þá bent til þess að töflur þessar hafi verið framleiddar í Kína.
Sérfræðingar segja að einhverjir telji að með því að gleypa töflurnar bæti það heilsu manna, lækni sjúkdóma og auki kyngetu.
En fyrir utan það hversu ósiðlegt er að framleiða slíkar töflur eru þær taldar geta borið með sér sjúkdóma.
Tollayfirvöld í Suður-Kóreu segjast ætla að fylgjast sérstaklega vel með flugferðum frá ákveðnum svæðum í Kína.
Töflurnar eru m.a sagðar seldar í náttúrulyfjabúðum í Suður-Kóreu.