Gagnrýna Obama fyrir stuðninginn

Niki Buchanan fyrir utan kránna Stonewall Inn í Greenwich Village …
Niki Buchanan fyrir utan kránna Stonewall Inn í Greenwich Village stuttu eftir að Obama lýsti yfir stuðningi við hjónaban samkynhneigðra. AFP

„Guð er höfundurinn að baki hjónabandinu og pólitískur öfgamaður á borð við Barack Obama hefur engan rétt á því að snúa út úr því og skilgreina hjónabandið á nýtt, í fjáröflunarskyni,“ sagði Brian Brown, forseti bandarískra samtaka um hjónaband, eftir yfirlýsingu Obama um stuðning við hjónaband samkynhneigðra.

Fleiri voru til að gagnrýna Bandaríkjaforseta, meðal annarra Bryan Fischer sem fer fyrir fjölskyldusamtökunum bandarísku. „Obama forseti skaut sig í fótinn í dag. Hann er búinn að vera,“ sagði Fischer og vísaði þar til baráttunnar sem framundan er við Mitt Romney, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins.

Sjálfur segist Romney mótfallinn hjónabandi samkynhneigðra og jafnvel staðfestri sambúð samkynhneigðra. „Ég er ekki hlynntur hjónabandi fólks af sama kyni og ég er ekki hlynntur staðfestri sambúð á meðan engin sjáanlegur munur er á henni og hjónabandi fyrir utan nafnið,“ sagði Romney við fjölmiðla í dag.

Afstaða Romneys er frábrugðin afstöðu George W. Bush að því leyti að sá síðarnefndi sagðist styðja staðfesta sambúð samkynhneigðra og að flokkur hans væri á villigötum hvað það atriði varðaði.

Ljóst þykir að umræðan um hjónaband samkynhneigðra muni vera hávær á næstunni og bitbein í kosningabaráttunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka