Bandarískur hermaður var í dag dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að nauðga suðurkóreskri unglingsstúlku. Féll dómurinn í Seúl í Suður-Kóreu.
Hermaðurinn, Kevin Robinson, er 21 árs og stúlkan sem hann nauðgaði var 17 ára er atvikið átti sér stað í Seúl í september á síðasta ári.
Mikil viðkvæmni er í kringum glæpi sem bandarískir hermenn fremja í landinu en þar er nú 28.500 manna herlið til að verjast hugsanlegum árásum frá Norður-Kóreu.
Í nóvember á síðasta ári var annar bandarískur hermaður dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að nauðga 18 ára stúlku í borginni Dongducheon, sem er nálægt landamærunum að Norður-Kóreu.
Í tilfelli hermannsins nú hafði hann verið að drekka áfengi með unglingsstúlkunni fyrr um kvöldið og segir í niðurstöðu dómsins að hermaðurinn hafi nýtt sér ölvunarástand stúlkunnar og komið vilja sínum fram við hana.
Enn er ekki ljóst hvort Robinson mun áfrýja dómnum en samkvæmt talsmanni hans neitar hann öllum ásökunum og segist ekki hafa átt samræði við stúlkuna en að þau hafi átt munmök og það hafi verið með hennar samþykki.