Evrópumeistaramótið í knattspyrnu 2012 sem fram fer í sumar snýst um mun meira en fótbolta fyrir Pólland, sem heldur mótið ásamt Úkraínu. Mótið hefur verið innspýting í efnahagslíf Póllands og mikil uppbygging orðið vegna þess, ekki bara á íþróttaleikvöngum heldur líka í almenningssamgöngum og víðar.
Pólland var valið sem gestgjafi EM 2012 árið 2007 og á þeim fimm árum sem liðin eru síðan hafa mikil umskipti orðið í landinu. Þjóðarleikvangurinn í Varsjá, þar sem mótið hefst þann 8. júní, hefur tekið stakkaskiptum og er nú yfirbyggður. Johanna Mucha, íþróttamálaráðherra Póllands segir að framkvæmdirnar fyrir mótið séu svo umfangsmiklar að ætla mætti að þær hefðu verið gerðar að 7-8 árum en ekki tæpum 5.
Eina evrulandið með jákvæðan hagvöxt í kreppunni
Það er ekki bara höfuðborgin sem nýtur góðs af Evrópumeistaramótinu. Nýir leikvangar hafa einnig verið byggðir í borgunum Poznan og Wroclaw, en flest verkefnin sem ráðist hefur verið í tengjast íþróttum ekki beint. T.d. hafa aðeins um 4% fjárfestinga vegna EM farið í uppbyggingu leikvanganna.
Til að tryggja að mótið fari sem best fram þarf t.d. að byggja upp almenningssamgöngur í landinu og það hafa Pólverjar getað gert með styrkjum frá Evrópusambandinu. Í Gdansk hafa nýjar lestarlínur verið lagðar og hraðbraut verið byggð umhverfis borgina. Í Posnan var byggð ný lestarstöð og í Wroclaw var byggð ný álma við flugvöllinn, sem getur sinn 4 milljónum farþega á árinu.
Pólland það eina af Evrópusambandslöndunum 27 þar sem hagvöxtur hefur stöðugt verið jákvæður þrátt fyrir kreppuna. Flest bendir til þess að EM 2012 hafi verið mikil innspýting og Pólverjar gera ráð fyrir að jákvæð áhrif þess haldi áfram löngu eftir að mótið sjálft er búið og muni bæta 2% við verga landsframleiðslu Póllands fram til ársins 2020.