Tsipras mistókst að mynda stjórn

Alexis Tsipras tókst ekki að mynda nýja stjórn.
Alexis Tsipras tókst ekki að mynda nýja stjórn. AFP

Alexis Tsipras, leiðtoga vinstrihreyfingarinnar Syriza, hefur mistekist að mynda nýja ríkisstjórn. Hann stefndi að því að mynda samsteypustjórn sem myndi rifta þeim skilmálum sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa sett vegna neyðarlánsins til Grikkja.

Syriza hafnaði í öðru sæti í grísku þingkosningunum sem fóru fram um síðustu helgi.

Tsipras fundaði með leiðtogum Nýs lýðræðis, stærsta flokks landsins, og Pasok, sem hafnaði í þriðja sæti, en ekkert samkomulag náðist.

„Draumur okkar um vinstristjórn mun ekki verða að veruleika,“ sagði hann við þingmenn Syriza að loknum fundarhöldum í dag.

Á mánudag mistókst Antonis Samaras, leiðtoga Nýs lýðræðis, einnig að mynda nýja ríkisstjórn. Búist er við að Evangelos Venizelos, leiðtogi Pasok, fái nú umboð til stjórnarmyndunar.

Talið er að gengið verði til kosninga í Grikklandi á nýjan leik í næstu viku, ef Venizelos mistekst að mynda stjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert