Varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur beðið Barack Obama Bandaríkjaforseta afsökunar á ummælum sem urðu til þess að Obama sá sér þann kost vænstan að lýsa yfir stuðningi við hjónaband samkynhneigðra, fyrr en áætlað var.
Biden bað forsetann afsökunar í Hvíta húsinu í dag. Áður höfðu embættismenn Obama lýst því yfir að hann hefði verið búinn að ákveða að gefa umrædda yfirlýsingu og að það yrði gert fyrir haustið. Ummæli Bidens urðu hins vegar til þess að forsetinn þurfti að gera það töluvert fyrr en hann ætlaði sér.