Seðlabankastjóri Finnlands, Erkki Liikanen, hefur ráðlagt grískum stjórnvöldum að leggja skatta á ríka Grikki til þess að reyna að leysa úr efnahagsþrengingum Grikklands.
Fréttavefurinn Euobserver.com hefur eftir Liikanen, sem áður sat í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að fyrirkomulag þar sem hinir ríku greiddu enga skatta væri ávísun á gríðarlegt óréttlæti.
Enn hefur ekki verið mynduð ný ríkisstjórn í Grikklandi í kjölfar þingkosninganna um síðustu helgi en sósíalistaflokkur Evangelos Venizelos, fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur nú fengið stjórnarmyndunarumboðið eftir að tvær fyrri tilraunir til stjórnarmyndunar runnu út í sandinn.
Ef ekki tekst að mynda nýja ríkisstjórn verður væntanlega kosið til gríska þingsins aftur í sumar.