Tugir manna létust eða særðust í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í morgun, þegar tvær öflugar sprengjur sprungu á háannatíma í umferðinni. Stjórnvöld segja hryðjuverkamenn ábyrga.
Sprengingarnar urðu á hraðbraut í suðurhluta borgarinnar. Sjónvarpsmyndir af vettvangi sýndu algjört öngþveiti, sviðin lík og logandi bíla. Ekki hefur verið gefin endanleg tala yfir fjölda látinna og særðra.
Í borginni Homs í norðurhluta Sýrlands hefur stjórnarherinn varpað sprengjum án afláts í nótt. Stjórnarandstæðingar segja að sprengjuregnið sé það versta í margar vikur.
Ellefu fulltrúar Sameinuðu þjóðanna eru nú staddir í Homs til að reyna að koma á vopnahléi þar, en fréttaritari BBC í Homs segir að verkefnið sé ómögulegt, þar sem samningar séu stöðugt rofnir á báða bóga. Í allt eru nú 70 sendifulltrúar SÞ í Sýrlandi, en návist þeirra þar hefur ekki orðið til þess að dragi úr ofbeldinu.