Karlmaður sem kom í veg fyrir fyrirætlanir liðsmanna al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna í Jemen um að sprengja farþegaflugvél í loft upp er sagður vera breskur ríkisborgari af mið-austurlenskum uppruna. Þetta kemur fram í bandarískum fjölmiðlum.
Breska ríkisútvarpið fjallar um málið og þar segir að breskir embættismenn neiti að tjá sig um málið. Fyrr í vikunni var greint frá því í bandarískum fjölmiðlum að erlendar leyniþjónustustofnanir hefðu aðstoðað við aðgerðina.
Þá segir að al-Qaeda hafi fengið manninn til að gera árás á bandaríska farþegaflugvél. Hann yfirgaf hins vegar Jemen og afhenti bandarísku leyniþjónustunni sprengjuna. Um er að ræða uppfærða útgáfu svokallaðrar nærfatasprengju, en svipuð sprengjan átti að granda bandarískri flugvél á jóladag 2009. Sú tilraun mistókst.
Bandarísk yfirvöld fullyrða að sprengjan hafi aldrei ógnað öryggi almennings.
Fréttaskýrandi BBC segir að það sé afar óvenjulegt fyrir leyniþjónustustofnanir að upplýsa um starfsemi annarra leyniþjónustna. Ef satt reynist geti málið vakið mikla undrun hjá breskum stofnunum.