Ekkert lát á ofbeldi í Sýrlandi

Að minnsta kosti átta létust víða um land í Sýrlandi í dag. Friðargæslumönnum Sameinuðu þjóðanna hefur verið fjölgað í landinu, en það virðist lítt duga til að lægja ofbeldisölduna. 

Nú eru 145 friðargæslumenn í landinu, en áformað er að þeir verði 300 talsins.

Fyrr í dag lýstu lítt þekkt íslömsk öfgasamtök, al-Nusra, yfir ábyrgð á sprengjuárásum í Damaskus í gær, en þar létust 55.

Öryggissveitir landsins myrtu tvo óbreytta borgara, karl og konu í borginni Idlib, sem er ein bækistöðva uppreisnarmanna og er skammt frá landamærunum að Tyrklandi. Þá var annar óbreyttur borgari myrtur í skothríð snemma í morgun í þorpinu Mork og annar var skotinn til bana af leyniskyttu í borginni Deir Ezzor.

Fjórir hermenn létust í átökum við uppreisnarmenn í Idlib-héraði.

Mannréttindasamtök áætla að meira en 930 manns hafi látið lífið síðan vopnahléi var komið á í landinu, fyrir einum mánuði. Fólkið vill breytingar á stjórnarfari og að Assad forseti landsins víki úr embætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert