Yfirmenn evrópskra seðlabanka ræða nú opinskátt um möguleikann á því að Grikkland yfirgefi evrusamstarfið á meðan leiðtogar stjórnmálaflokka í Grikklandi leitast við að mynda ríkisstjórn. Þetta kemur fram á vef BBC.
Jens Weidmann, yfirmaður þýska seðlabankans, sagði í dag að Grikkir hefðu valið, en tækju þeir þá ákvörðun að efna ekki skilyrði fyrir neyðarláni myndu þeir enga aðstoð fá.
Írskur starfsbróðir hans, Patrick Honohan, sagði að erfiðleikar myndu skapast hættu Grikkir í evrusamstarfinu, en þeir erfiðleikar yrðu hins vegar viðráðanlegir. „Ekki er gert ráð fyrir því í löggjöf eða samningum að ríki hætti í samstarfinu en ófyrirséðir atburðir geta gerst. Tæknilega væri hægt að fást við slíkan atburð.“
Grikkir gera nú lokatilraun til að mynda ríkisstjórn.
Papoulias forseti hittir í dag leiðtoga stjórnmálaflokka eftir að þeim mistókst að mynda ríkisstjórn með samningum sín á milli.
Grískir kjósendur refsuðu þeim flokkum sem studdu skilyrði neyðarlánsins í kosningum síðasta sunnudag.
Per Jansson, fulltrúi sænska seðlabankans, sagði við Bloomberg-fréttastofuna á föstudag að yfirmenn seðlabanka í Evrópu ræddu nú sín á milli um möguleikann á því að Grikkir færu út úr evrusamstarfinu og hvernig fást mætti við afleiðingarnar.
„Það verður hvorki sársauka- né flækjulaust ferli.“