Hafa fengið nóg af hræðslu

Sýrlendingar eru búnir að fá nóg af því að vera hræddir. Almenningi hefur verið talin trú um að fari stjórn Assads forseta frá völdum taki við ringulreið og blóðug borgarastyrjöld.

Þetta segir sendiherra Tyrklands í Sýrlandi, Omer Onhon, á ráðstefnu í Eistlandi í dag þar sem málefni Sýrlands voru rædd.

„Sýrlendingar hafa fengið nóg af því að vera hræddir. Alþjóðasamfélagið þarf að sannfæra þá um að stjórnarskipti í landinu gera ástandið ekki verra,“ sagði hann.

Tyrkir hafa fram að þessu verið andsnúnir hernaðaríhlutun í Sýrlandi, en Onhon segir að sú afstaða gæti vel breyst, haldi ástandið áfram. „Við erum algerlega mótfallin öllum hernaðarafskiptum af Sýrlandi, en þegar við fáum 200.000 Sýrlendinga að landamærum okkar, sem biðja um hæli, þá þarf að gera eitthvað,“ sagði hann.

Þegar eru um 26.000 sýrlenskir flóttamenn í Tyrklandi.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, var einnig á ráðstefnunni og sagði að færi sýrlenska stjórnin frá, myndi óvissuástand ríkja í nokkurn tíma.

Mannréttindasamtök áætla að meira en 12.000 manns hafi látið lífið í átökum og mótmælum í landinu síðan í mars í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert