Hinir grömu láta til sín taka

Spænska lögreglan rýmdi aðaltorg Madrídborgar, Puerta del Sol, í morgunsárið, en þar höfðu hundruð mótmælenda haldið til í nótt, eftir mótmæli gærdagsins. Flestir þeirra sem höfðust við á torginu tilheyra „Hreyfingu hinna grömu“ eða Los Indignados sem mótmælti efnahagslegu óréttlæti víða um landið í gær. Hreyfingin var stofnuð fyrir ári.

Lögregla hafði beint þeim tilmælum til fólks að vera ekki á torginu eftir klukkan tíu í gærkvöldi, en það var virt að vettugi. Fólkið hafði fengið leyfi til að halda fimm klukkustunda langan mótmælafund á torginu og getur auk þess fengið afnot af því í tíu klukkustundir á dag næstu fjóra dagana.

Mótmælagöngur voru gengnar í um 80 borgum og bæjum á Spáni í gær, þegar fjögurra daga mótmæli hófust. Þeim á að ljúka á þriðjudaginn, 15. maí, en þá er ár síðan Hreyfing hinna grömu var stofnuð.

Heimildum ber ekki saman um hversu margir tóku þátt; lögregla segir að um 45 þúsund manns hafi mótmælt í Barselóna, næststærstu borg Spánar, en mótmælendur segja fjöldann talsvert meiri, um 220 þúsund manns.

Frétt mbl.is: Mótmælt á Spáni að nýju

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka