Vikuritið Newsweek hefur sjaldan eða aldrei fengið jafn margar heimsóknir á vefsíðu sína og nú eftir að það birti forsíðumynd af Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, með geislabaug í öllum regnbogans-litum undir fyrirsögninni: Fyrsti samkynhneigði forsetinn [e. The First Gay President].
Samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar hafa álíka margir farið inn á vef Newsweek og inn á vef helsta keppinautarins, Time. En Time er prentað í 3,3 milljónum eintaka á meðan Newsweek er prentað í 1,5 milljón eintaka. Bæði tímaritin berjast nú um áskrifendur og einn liður í þeirri baráttu er að vera með „söluvæna“ forsíðu.
Einungis nokkrir dagar eru liðnir síðan Obama markaði tímamót með því að verða fyrstur sitjandi Bandaríkjaforseta til þess að lýsa yfir stuðningi við hjónabönd samkynhneigðra.
„Obama vann fyrir hverri einustu rönd í regnbogageislabaugnum,“ segir Tina Brown, ritstjóri Newsweek og vefútgáfunnar The Daily Beast, í Twitter færslu.
Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Jay Carney, segist ekki vita hvort Obama hafi séð forsíðu Newsweek og hann hafi ekki spurt forsetann um það.
Newsweek fylgir í kjölfar Time sem birti í síðustu viku mynd af móður sem er með þriggja ára gamlan son sinn á brjósti undir fyrirsögninni: Ert þú nægilega mikil mamma? [e. Are You Mom enough?]
Konan á myndinni heitir Jamie Lynn Grumet, 26 ára móðir frá Los Angeles.
Greinin sjálf fjallar um nýstárlega hugmyndafræði um barnauppeldi, svonefnt bindi-uppeldi [e. Attachment Parenting], sem felst í þremur grundvallarþáttum; framlengdri brjóstagjöf, sameiginlegum svefnvenjum og jafnframt að ungabörn séu fest við foreldra sína.
Greinin og forsíðumyndin hafa vakið umræður um hvort framlengd brjóstagjöf til þriggja ára eða jafnvel sex ára aldurs geti verið hættuleg fyrir börn. TIME og Grumet hafa jafnframt verið sökuð um að gera sér drenginn að féþúfu.
„Ég skil vel að Time valdi þessa mynd þar sem hún olli svo mikilli umfjöllun,“ segir Jamie Lynne Grumet í viðtali við NBC sjónvarpsstöðina.
Aðalritstjóri Newsweek, Justine Rosenthal, segir að tímaritið hafi verið með aðra frétt og forsíðu tilbúna en ákveðið að skipta henni út þegar Obama greindi frá stuðningi sínum við hjónabönd samkynhneigðra á miðvikudag.