Buffet hjálpi Pitcairn-eyjum úr kreppu

Warren Buffet
Warren Buffet Reuters

Eyjaskeggjar á hinum afskekktu Pitcairn-eyjum í Kyrrahafi vonast nú til þess að bandaríski milljarðafjárfestirinn Warren Buffett verði við beiðni þeirra um að veita ráðgjöf í efnahagskröggum þeirra.

Pitcairn-eyjar eru fjórar talsins, miðja vegu milli Síle og Nýja-Sjálands, og búa þar aðeins um 60 manns. Þeim hefur verið lýst sem minnsta, einangraðasta og fátækasta ríki heims. Efnahagur þeirra hefur liðið verulega fyrir breyttar siglingaleiðir um Kyrrahaf og tölvuvæðingu siglingaáætlana auk þess sem hrun varð í sölu litríkra frímerkja frá Pitcairn-eyjum, sem voru afar eftirsóttir fyrir tilkomu netsins. 

Þrói viðskiptaáætlun fyrir eyjarnar

Nú er verið að skipuleggja ráðstefnu til stuðnings Pitcairn-eyja í erfiðleikunum og fer hún fram í Kaliforníu í ágúst og hefur Warrent Buffet verið boðið að sækja hana, ekki til að gefa styrktarfé heldur til að þróa „viðskiptaáætlun" fyrir eyjarnar.

Herbert Ford, sem er formaður rannsóknarmiðstöðvar um Pitcairn-eyjar við Pacific Union College í Kaliforníu, segir að Buffet sé mannvinur í hjarta sér. „Við trúum því að hann muni sjá eitthvað við þetta boð, til eins ríkasta manns heims, um að hjálpa einum af smæstu og fátækustu samfélögum heims," hefur Afp eftir Ford.

Hann segist sannfærður um að Pitcairn-eyjar geti skapað sér bjarta framtíð, með viðskiptaviti Buffet. „Það má líkja þessu við það að í stað þess að gefa hungruðum manni fisk ætti frekar að kenna honum að veiða svo hann verði aldrei hungraður aftur.“

Við Pitcairn-eyjar.
Við Pitcairn-eyjar. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert